<$BlogRSDUrl$>

Thursday, November 27, 2003

jihh gleymdi alveg að segja frá hvað ég er mikill snillingur. Dreif mig sko í lyfjafræðiprófið í gær og náði því líka svona með glans. Var reyndar slatti stressuð yfir að hafa ekki náð því því það var miklu erfiðara en ég bjóst við en svo var nú ekki. Enginn smá léttir að vera búin að þessu, það hefði nefnilega verið svo auðvellt að fresta þessu en svona er maður harður af sér...

Er annars að springa, vorum að koma heiman frá Diane frænku þar sem við úðuðum í okkur kalkún með ýmislegu meðlæti og kökum í eftirrétt. Mmmmm ekkert smá gott.
|
Það var algjör snilld maturinn hjá Dísu í gærkvöldi (slef slef). Við fengum íslenskt lambalæri sem var kryddað á svolítið öðruvísi hátt en maður er vanur, fullt af ferskum kryddjurtum og einhverju góðgæti. Ekkert smá gott, meðlætið klikkaði náttla ekki heldur. Svo var ég bara leyst út með pökk og allt. Málið er sko að við vinkonurnar erum svolítið fyrir svokallaðar cup cake sem eru með þykku lagi af frosting ofan á, sem fást í einu af tveimur mjög svo frægum bakaríum á Manhattan. Þær sem sagt gáfu mér uppskriftabókina sem konan hefur gefið út sem á bakaríið, ekkert smá girnileg. Þetta þýðir náttla bara eitt, einhverjir heppnir heima eiga eftir að smakka þessar frægu cup cake.................

Eftir nokkur rauðvínsglös og Kahlua kaffi rölltum við niður á Grand Central og tókum lestina okkar heim, södd og sæl. Takk enn og aftur fyrir okkur Dísa mín.

Svo er ég bara að pakka, svolítið skrítið verð ég að segja. Mér finnst eins og ég sé hálf að svindla með því að fara heim, ekki búin að vera hérna nema tvo mánuði. En það verður bara gaman að hitta alla, svo ég tali nú ekki um uppáhalds persónuna mína hann Árna Gunnar. Ég hlakka ekkert smá til að sjá þetta krútt sem hefur náttúrulega breyst svolítið síðan síðast.

Annars eigum við að mæta klukkan hálf fimm til að byrja að raða í okkur Þakkargjörðarmáltíðinni. Það er víst hefðin að borða í fyrra fallinu og horfa svo á fótbolta og drekka bjór. Veit ekki hvort ég taki þátt í því en sjáum til.

Við þurfum annars að fara snemma af stað í fyrramálið en rútan til Baltimore fer klukkan 11, sem þýðir að við þurfum að leggja af stað héðan upp úr 9. Bara svona til að vera pottþétt á þessu enda tekur það smá tíma að drösla tveimur þungum ferðatöskum um subveiið.

Já þá er þetta síðasta bloggið á árinu frá New York, vonast nú samt til að þau verði miklu fleiri á næsta ári. Sé ykkur bara síðar eða bara á mánudaginn..........
|

Tuesday, November 25, 2003

Þá er það komið á hreint, við erum að koma heim.....

Ég keypti miðan í gærkvöldi og kem 1. des en Kiddi gat bókað í morgun og kemur 17. des og fer aftur 15. jan. Við tökum við fjárframlögum á reikning ...........

Þetta er allt eitthvað svo mikið púsluspil því Flugleiðum sýnist svo að fljúga ekki til NY um vetrarmánuðina. Við tökum sem sagt kínarútuna til Washington Dc á föstudaginn, en förum út í Baltimore og verðum hjá frænku minni fram á sunnudag. Ég fer út á flugvöll um kvöldið en Kiddi tekur Greyhound rútuna til baka frá Baltimore. Það var ódýrara en að taka lestina til DC og þaðan kínarútu, hvað þá miklu minna mál.

Kiddi var svo heppin að fá díl með flugi héðan til Boston þannig að hann þarf sem betur fer ekki að rútast eitthvað þangað.

Svo er það engin smá hamingja en ég fékk vinnu á Gjörgæslunni og þarf vonandi ekki að vinna lengur en út jan. en það verður víst allt að koma í ljós eins og annað. Hef því miður ekkert enn heyrt í bjévítans lögfræðingnum.

Er núna að læra undir lyfjafræðiprófið sem ég ætla að taka á morgun, er ekki beint að nenna því en verð víst að reyna að halda einbeitingu. Svolítið erfitt þegar maður er rétt að fara heim og mikið að arrensera fyrir það.

Annars verður nóg að gera hjá okkur að borða í vikunni. Erum boðin í læri til Dísu annaðkvöld og svo er það bara Þakkargjörðarhátíðin á fimmtudag. Ég held mér sé bara bumbult af tilhugsuninni.........
|

Monday, November 24, 2003

Það má bara segja að við höfum verið í rólegu deildinni um helgina, þótt við höfum samt gert slatti mikið.

Við fórum að meiriháttar sýningu á föstudagskvöldið í Natural History Museum sem var svona tónlistar og þrívíddar sýning, Sonic Vision. Við sátum í geim sýningarsalnum þar sem maður hallar sér aftur og horfir á myndina og líður eins og maður sé inn í henni. Það spillti ekki fyrir að góð tónlist var spiluð á meðan, t.d. Radiohead, U2, Spiritualized, Queens of the Stone Age, Moby og fleiri. Kíktum reyndar á smá púbb með Einari á eftir en vorum bara stutt í þetta skiptið.

Því laugardagurinn var frátekin fyrir myndavélakaup. Dísa og Sibba komu með okkur í J$R þar sem fjárfest var í gripnum, Canon Powershot A70. Segir örugglega mörgum margrt en þetta er vél þar sem hægt er að ráða mikið af stillingum. Tískufríkið ég vildi náttla kaupa aðeins flottari vél (sko hönnunarlega séð) sem var meira automatísk en eiginmaðurinn fékk að ráða í þetta skiptið, enda svo sem hans gjöf ;)
Svo var aðeins röllt um Soho og borðað á indverskum stað um kvöldið. Maturinn var náttúrulega himneskur og borðað mikið eftir því þannig að maður var ekki í miklu stuði til neins þar á eftir. Kíktum heim til Dísu í svolitla stund og héldum svo heim á leið hlaðin pinklum í lestinni.

Í gær kláruðum við svo jólagjafainnkaupin, þvílíkt öflug, enda gott að vera búin að þessu.

Það var líka eins gott að það sé frá því ég er bara að mæta á svæðið eftir viku. Jebbs ég er að koma heim til að vinna og vera með fjölskyldunni yfir jólin. Sennilega verðum við líka í janúar því Kiddi er í fríi til ca 20. jan og ég nýti tíman til að vinna eins og brjálæðingur meðan ég bíð eftir að eitthvað gerist í mínum málum. Svo er bara að sjá hvort eitthvað gerist.........


|

Thursday, November 20, 2003

Það er einhver blogglægð í gangi enda einhver svona hálf lægð yfir manni. Það gengur voða illa að toga upplýsingar upp úr lögfræðingnum svo ég veit ekkert hvernig umsóknin mín hefur það.

Ég er bara að spá í að tækla þetta þannig að koma bara til Íslands og bíða þar yfir aðventuna og jólin. Vonandi bara að þessir starfsmenn komi hressir aftur til vinnu eftir áramót og afgreiði mig svo ég geti farið út með Kidda í lok janúar.

Stefnan er að vinna eins og brjálæðingur, vonandi bara að það verði hægt að ráða mig á gamla góða vinnustaðnum.....

Já svo eru allir að tapa sér yfir Mikjáli nokkrum Jackson, meiri vitleysingurinn ef þetta er allt saman satt, það er samt kannski understatement!!

Það styttist í Friends svo ég bið að heilsa í bili..........
|

Monday, November 17, 2003

Úff annar slappur mánudagur, þið getið þá ímyndað ykkur hvernig sunnudagurinn var. Spurning hvort maður þurfi ekki að fara að taka sig á?? Mjá já

Maður hafði þó ærið tilefni til að sletta úr klaufunum á laugardaginn, bóndinn hvorki meira né minna en ÞRJÁTÍU ára. Þökkum árnaðaróskir að því tilefni.

Ég var annars meirihlutan af deginum þar sem allar konur eiga að vera, á bakvið eldavélina....

Byrjaði á því að færa eiginmanninum pökk með helíum blöðru bundna utan um, sem innihélt Creative Labs Muvo MP3 spilara. Þvílíkt flottur, getur downlódað gögnum inn á hann, dikterað á hann og flutt 4 geisladiska af tónlist - þvílík hamingja.
Já svo fékk hann Cheerios og nýmalaðann kaffibolla í rúmið.

Svo sletti mín í köku á meðan ég tróð hvítlauksgeirum (mjög mörgum) í lærið og kryddaði það.
Mmmmmmm þetta var þvílíkt gott, það jafnast ekkert á við íslenskt læri og gott ástralskt rauðvín. Þökkum Stefaníu og Eggerti enn og aftur fyrir að koma með lærið :)

Nú svo var ég búin að plana party á laun, heima hjá Dísu, þannig að upp úr átta lögðum við af stað. Misreiknaði mig aðeins því ég sagði fólkinu að mæta klukkan níu og við vorum mætt 15 mín. yfir. Maður á náttúrulega ekki að gera ráð fyrir að íslendingar komi á réttum tíma þannig að við mættum þegar tveir gestir voru komnir. Smá mínus en reddaðist að sjálfsögðu. Eiginmaðurinn voða lukkulegur með þetta.

Það þarf svo sem ekki að hafa mörg orð um hvernig restinu af kvöldinu var eytt. Dísa hafði keypt fyrir mig í gegnum mjög góð sambönd kassa af rauðvíni og ginflösku, ásamt því að ég keypti tvo kassa af bjór. Jebbs ekki nema von að maður sé slappur.

Svo er bara stefnan að eyða öllum þeim peningum sem hann fékk í í afmælisgjöf í rafmagnstæki, getum loksins græjað okkur upp. Enda orðin nokkuð lummó með gettóspilarann minn frá 1993 og einnota myndavél :)

Annars er það að frétta af frunsunum mínum að þær eru orðin tvö stór sár á eftir vörinni á mér. Ætla að leiðrétta þann misskilning úr fyrra bloggi að ég sé með margar efri varir, ein dugar mér alveg, þó lítil sé....

Jæja ætli maður fari ekki bara að smella sér í J&R þar sem fæst fullt af rafmagnstækjum, gaman gaman.
|

Friday, November 14, 2003

Það er nú voða lítið að frétta af okkur hjónakornunum. Ekkert merkilegt gerst í þessari viku.

Nema ef merkilegt skildi kalla að við fórum á barkvöld í gærkveldi, alveg ágætt bara.

Það eru svo náttúrulega ýmis plön í gangi fyrir stóra daginn á morgun en ekkert sem ég get látið uppi núna eins og er. Verður bara að koma í ljós síðar..........

Svo maður tali nú aðeins um veðrið þá hefur íslenskt rok verið að heiðra okkur hér, allt í skralli því tré og rafmagnslínur hafa verið að brotna og valdið rafmagnsleysi hjá þúsundum manna. Við höfum sem betur fer sloppið en þetta er víst verst úti á Long Island, ekkert svo langt frá okkur.

Ætli það verði ekki bara bökuð pizza í kvöld og huggað sig með rauðvíni og ostum, hvað annað getur maður gert í svona óveðrum???

Ég óska ykkur hinum þarna úti góðrar helgar, alóha
|

Wednesday, November 12, 2003

Ég lýt út eins og fílamaðurinn, er með hvorki meira né minna en 3-4 frunsur. Það fer sko eftir hvernig maður lýtur á eina, gæti verið klofin eða tvíburar.... Ég veit ykkur finnst mjög gaman að lesa um frunsurnar mínar en Lara Flynn Boyle myndi öfunda mig af efri vörunum núna.

Ég óska Karenu og Binna ynnilega til hamingju með frumburðinn, þeim fæddist "lítill" strákur á þeim merkisdegi 11.11. Fyrir suma hefur þessi dagur alltaf ákveðna merkingu, þeir vita sem um er rætt.

Verð annars að segja að Bell & Sebastian tónleikarnir voru með þeim skemmtilegustu sem ég hef farið þá, lenda pottþétt á topp 10 listanum. Þvílíkir tónlistarmenn sem þetta eru, það voru þegar mest var 12 tónlistarmenn á sviðunu og það var liggur við alveg sama hvaða hlóðfæri það var, þau gátu svissað á milli. Algjör snilld og það ríkti eitthvað svo mikil gleði þarna. Við Kiddi vorum eins og kóngar, sátum fyrir miðju neðst á svölunum í mjög svo fallegu og gömlu leikhúsi, alveg til að bæta stemminguna.

Nú lýður senn að eiginmaðurinn komist á fertugsaldurinn, maður er ekki lengur með neinu unglambi. Enda svo sem umdeilanlegt hvort ég sé það mikið lengur......

Jæja ætla að drífa mig niður í bæ að hitta Sonju og Dísu þar á eftir, nóg að gera!!!!!
|

Monday, November 10, 2003

Úff það er sko alveg mánudagsfílingur í gangi.......

Helgin já, allavega miðað við hvernig mánudagur þetta er þá getið þið kannski ímyndað ykkur hvernig laugardagurinn var.

Dagurinn fór allavega rólega af stað, ótrúlegt hvað það er notalegt að tjilla með New York Times svona um helgar (erum sko orðnir helgaráskrifendur).
Markaðurinn var svo alveg mjög fínn, versluðum nokkrar jólagjafir og eina afmælisgjöf. Ég veit samt varla hvort ég eigi að segja þetta en við erum næstum búin að kaupa allar jólagjafirnar, ótrúleg útsjónarsemi ;)

Já fórum svo í heimsókn til Einars til að skoða nýja sófann hans, mjög fínn. Þar var kíkt í nokkra bjóra og hann plataði okkur svo með sér í innflutningsparty til vinkonu hans. Það reyndar þurfti nú ekki mikið til að plata okkur frekar en fyrri daginn!!
Enduðum svo á púbb og lestin heim einhverntíman síðla nætur.....

Það eru ekki mörg orð sem þarf að segja um sunnudaginn nema Sex and the City, maður er gjörsamlega orðinn forfallinn fíkill fyrir þessum þáttum. Verst að það verða mikil fráhvarfseinkenni þegar þessi sería er búin því það á eftir að gefa út 2 seríur í viðbót. Snökkt snökkt.

Það er allavega einn plús við þennan mánudag, Bell & Sebastian. Erum að fara á tónleika með þeim í kvöld, jibbí kóla...

|

Saturday, November 08, 2003

Sáum Kill Bill í gær og það er eiginlega bara hægt að segja eitt - SNILLD. Ég elska þennan mann hreinlega, ehh sko kvikmyndalega.

Annars gat maður pirrað sig yfir heimskum ameríkönum sem gátu ekki haldið kjafti alla myndina, sama hvað maður sagði þeim að þegja.

Fórum annars á 42nd street í bioið (sem er eiginlega á Times Square), þvílíkt mis sem það var. Það er svo mikið af fólki þarna að maður þverfótar ekki. Ástæðan fyrir að við fórum annars á þennan túristastað, sem við förum eiginlega aldrei á, er að það er svo þægilegt lestarlega séð. Stökkum þá bara upp í 7-una á fyrstu stöð og brunum beint heim, fyrir utan "nokkur" stopp.

Stefnan í dag er tekin á markað sem er alltaf á einhverjum 10 blokkum hér í borg, þá meina ég sem nær yfir 10 götur á einhverju avenue-i.

Það er annars því miður búið að kólna svolítið hér í borg og svei mér þá ef ég þarf bara ekki að taka fram nýju úlpuna mína.....

|

Friday, November 07, 2003

Ja sko, ég bara stóðst endurlífgunarprófið með glans, enda svo sem skítlétt þannig að núna er ég komin með skriteini frá amerísku hjartasamtökunum upp á að ég sé heilbrigðisstarfsmaður sem kann endurlífgun ;)

Er samt núna að pirra mig á hversu ótrúlega léleg þjónustulundin er hérna. Ég fór í þriðja skiptið í efnabúðina sem er hérna rétt hjá til að athuga með garn en það er aldrei til. Svarið sem ég fæ frá deildarstjóranum er að þetta gæti komið á morgun eða hinn. Ég sagði þá að þetta væri í þriðja skiptið sem ég kæmi í sömu ernindagjörðum og aldrei neitt til. Þá er bara hreitt í mann að fólk kaupi svo mikið af þessu í einu að það sé svo fljótt búið. HALLÓ afhverju kaupirðu þá ekki meira inn í búðina og gefur kúnnanum betra svar. Já maður getur endalaust pirrað sig á hversu afgreiðsulfólk er dónalegt hérna en ætli það breytist nokkuð....

Stefnan er tekin á Kill Bill í kvöld, kominn tími til gætu sumir sagt - ég er allavega sammála því.

Nú fer að styttast í að ástkær systir mín byrji að vinna aftur en hún er að fara að vinna á þeirri frábærri hárgreiðslustofu Rauðhetta og Úlfurinn. Þannig að núna vita allir hvert þeir eiga að fara í jólaklippinguna :)

Annars styttist óðum í jólin, ótrúlegt hversu tíminn er fljótur að líða. Hér er náttúrulega allt orðið fullt af jólaskrauti, ekki að spyrja að því.

Ég bara óska ykkur góðrar helgar og farið vel með ykkur.


|

Wednesday, November 05, 2003

Sælan er ekki eilíf og núna er haustveðrið greinilega allsráðandi, rigning og um 15 stiga hiti. 'Uff það mætti halda að ég hefði ekkert skemmtilegra um að tala en veður en svona er maður mikill íslendingur.

Var annars á endurlífgunarnámskeiði í gær (BLS) og var það bara mjög fínt, heyrði útundan mér að leiðbeinandinn sagði við annan að ég hefði staðið mig rosa vel. Hí hí gaman að því. Svo er bara próf í næsta tíma og skirteinið komið, veit ekki en mér finnst eins og ég geri ekkert annað hér en að taka próf. Hefur einvher tekið eftir því??

Er annars alltaf að bíða eftir að lögfræðingurinn svari mér þannig að á meðan veit ég ekkert meir, orðið svolítið þreytandi verð ég að segja.

Verð að fara að sjá Kill Bill, alveg skammarlegt að vera ekki búin að fara en það stendur reyndar til að fara á föstudaginn. Ég verð örugglega rekin úr aðdáendaklúbbnum, spurning samt hvort hinn meðlimurinn úr aðdáendaklúbbnum sé búinn að sjá hana??

Ég fékk annars sent þvílíkt sætt myndband af Árna Gunnari í gær, næstmestuuppáhaldspersónunniminni en hann var að sýna hvað hann væri stór. Ég bæði hló og grét yfir þessu, þvílíka dúllan. Svo sagði mamma hans mér áðan að hann hefði ekki gert þetta síðan, sko þetta var bara gert fyrir uppáhalds frænku sína.

Jæja ég bið ykkur bara vel að lifa
|

Monday, November 03, 2003

Ja hérna, núna er um 25 stiga hiti og þvílík notalegheit. Þetta er víst met en í fyrra var um 10 stiga hiti á sama tíma. Sumir halda að það sé verið að bæta okkur upp fyrir kaldan vetur í fyrra en maður veit aldrei.

Helgin var mjög fín, við hjónin röltum um Williamsburg á laugardaginn en þetta er voða hipp og kúl hverfi með mikið af ungu fólki. Hverfið er mjög heillandi, svolítið niðurnýtt en á skemmtilegan hátt. Það er fullt af second hand búðum þarna, flóamörkuðum og svo var bara mjög algengt að fólk var með dótið sitt sem það vildi selja úti á gangstéttt.

Síðan var borðaður kvöldmatur hjá Dísu og Einar og Fura komu yfir. Nokkrar bjórflöskur voru opnaðar meðan við hlustuðum á góða tónlist en svo var stefnan tekin á bar í Meatpacking District (kjötpökkunarhverfið). Við reyndar komumst ekki inn á þennan tiltekna stað en í staðin fundum við alveg geðveikan bar. Barinn sá var sennilega uppranlegi Coyote Ugly staðurinn, feitir mótorhjólagaurar voru dyraverðir og þegar inn var komið voru barstelpurnar að dansa á leðurbrjóstahöldunum uppi á bar, við mikinn fögnuð gesta. Annars var barinn gjörsamlega pakkaður af fólki og brjóstahöldum uppi um alla veggi. Mér var nú hugsað til Láru frænku en ég fór með hana á sínum tíma á þessa mynd, henni til mikillar ánægju og mér að horfa á hana fylgjast með. Ég reyndar efast um að henni hefði verið hleypt inn en það er spurning hvort ég hleypi eiginmanninum þangað aftur :)

Það var frekar mikill letidagur í gær, vægt til orða tekið en núna ætla ég að drífa mig niður í bæ til að njóta góða veðursins.....
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?