<$BlogRSDUrl$>

Tuesday, March 30, 2004

Jibbí jibbí jibbidí dú

Við erum að fara til LA á Coachella tónlistarhátíðina í byrjun maí til að sjá Pixies og Radiohead + fullt af fleiri skemmtilegum númerum. Já lífið er ljúft..................

Á nebblega svo frábæra vinnuveitendur sem gáfu mér 2 vikur aukalega til að koma fyrr út til að njóta herlegheitanna.

Höfum það annars rosalega ljúft með Frikka og Möggu - skoðum, drekkum, skoðum, drekkum, drekkum og skoðum kannski smá meira (eða drekkum). Fórum áðan á Jackson Diner í indverska hverfinu og borðuðum frábæran mat, eins og alltaf þegar maður fer þangað - slef slef.

Já annars eru svo tveir tónleikar framundan í vikunni, Stellastarr á miðvikudaginn og Walkmen á fimmtudaginn. Það verður gaman að endurnýja kynnin við Stellastarr því ég sá þau fyrst þegar þau voru frekar ófræg að spila á litlum stað, en núna eru þau orðin aðeins stærri og þekktari (eru meðal annars í LA).

Þangað til næst.......
|

Monday, March 29, 2004

Ohhh erum búin að hafa það frábært yfir helgina.

Um 20 stiga hiti í gær og 15 í dag, hvað er hægt að biðja um meira.
Höfum verið dugleg að rölta með gestina um, svo mikið að ég er hrædd um að við höfum gengið frá þeim á fyrsta degi - úps. Maður er kannski ekki í mikilli æfingu komandi frá Reykjavík (og hvað þá Grafarvoginum!! sorry ekki illa meint), annað en þessir New Yorkerar sem við erum......... ;)

Já og það eru nokkrir bjórar sem hafa runnið niður á hinum ýmsustu púb-um, gæti ekki verið betra.

Ég segi bara skál mamma, skál pabbi...............................tengdapabbi - ég segi bara skál öll sömul.
|

Friday, March 26, 2004

Aftur nokkrar mínútur í tölvunni :)

Er ákkúrat núna að hlusta á nýja Blonde Redhead diskinn, Misery is a Butterfly. Við erum að tala um hreina snilld, þessi hljómsveit er svo góð að það hálfa væri nóg. Ég hef verið svo heppin að sjá þá einu sinni hér í NY sem upphitunarband og verð því miður að láta það duga því ég verð í staðin í brúðkaupi hjá Gunni þegar næstu tónleikar eru hér í borg. Það er svo sem ekkert miður að fara í brúðkaup og hvað þá hjá Gunni, frábært bara.

Og til þeirra sem stela tónlist af netinu, fá diska lánaða og rippa þá og hvað það er sem fólk gerir til að fá tónlistina fría þá er það ekkert miðað við að kaupa diskinn og hafa hann í höndunum. Maður er annars að missa oft á tíðum af alveg frábærri hönnun á umslögum sem bæta eitthvað svo mikið við eignina af tónlistinni. Til dæmis umslagið að Blonde Redhead disknum er með því flottara sem ég hef séð og hana nú...........

Er loksins búin að finna mér gallabuxur, ótrúlegt hvað það er erfitt að finna þær réttu. Það er nú ekki eins og það sé nægilegt úrval hér, kannski er ég bara sérvitur??

Er annars bara búin að vera niðri í bæ á röltinu í vikunni og fara á kaffihús og svona. Hittum Dísu á miðvikudaginn á kaffihúsi og áttum við góða stund þar yfir Café au Lait og amerískri ostaköku, ummm þær eru svo góðar (Gunnur þú veist hvað ég er að tala um... :)

Svo erum við að fá góða gesti í kvöld, Frikki frændi hans Kidda og Magga konan hans eru að koma frá Íslandi og verða hjá okkur í viku. Annars er Frikki alltaf Frikki frænka í mínum huga. Þetta er nokkuð fyndin saga að segja frá en við Gugga höfum deilt henni á fjórða ár held ég (úff er svona langt síðan).
Það var þannig að þegar Gugga bjó í Danmerku ásamt Frikka og Möggu sagði hún mér í einu e-meilinu að hún hafi hitt Frikka frænku hans Kidda sem var einu sinni frændi hans. Mér fannst þetta nú hljóma eitthvað undarlega en lét ímyndunaraflið gjörsamlega hleypa með mig í gönur og sem sagt fann það út víst hann er í Danmerku þá hlyti hann að hafa farið í kynskiptiaðgerð þar (þetta var áður en ég vissi að hann ætti kærustu). Við Kiddi vorum ný byrjuð saman og nefndi ég þetta eitthvað við hann en hann varð eitthvað undarlegur og svaraði mér varla. Ég hélt því að þetta væri eitthvað viðkvæmt mál í fjölskyldunni og nefndi þetta ekki meira. Það var svo ekki fyrr en nokkrum mánuðum síðar að ég heimsótti Guggu og hitti Frikka í Jónshúsi að ég komst að því að hann gæti nú varla verið karlmannlegri og alls ekki kona........
Já svona er þetta :)

Verð annars að hleypa Kidda að í tölvunni aftur og fara með þvottin út í þvottahús svo ég hafi smá tíma til að sauma í dag áður en þau koma.

Góða helgi gott fólk
|

Tuesday, March 23, 2004

Jæja núna fæ ég nokkrar mínútur í tölvunni svo það er eins gott að koma ferðasögunni frá sér eins fljótt og hægt er :) Nei nei annars þá er svo mikið að gera hjá eiginmanninum í lærdómnum þannig að minn tími við tölvuhangs er takmarkaður.

Eins og áður hefur komið fram þá fórum við með kínarútunni til DC á föstudaginn, þrátt fyrir veðurviðvaranir. Það var náttúrulega orðum aukið svo þetta var ok. Ferðin var bara fín en tók aðeins lengri tíma en við bjuggumst við því það voru 2 slys á New Jersey Turnpike sem töfðu okkur aðeins. Eftir 5 tíma vorum við komin til DC og þá var ferðinni heitið á The Mall, stórt stórt svæði með öllum Nationl söfnunum (Smithsonian Institution) sem liggur frá þinghúsinu að George Washington Monument. Við sem sagt löbbuðum að því en komumst því miður ekki að vegna framkvæmda þar við en löbbuðum fram hjá því að Lincon Memorial. Kallinn sat sem fyrr og tjillaði en eftir að hafa heimsótt hann skoðuðum við Vietnam Memorial.

Eftir allt þetta labb var kominn tími til að hitta Jóa og Veigu, sem við og gerðum og buðu þau okkur út að borða á voða fínum armískum veitingastað. Eftir það var haldið heim og slakað á yfir rauðvíni..............

Laugardagurinn var tekinn nokkuð snemma og fórum við í góðan göngutúr um landssvæðið sem þau deila með öðrum íbúum hverfisins. Svakalega fallegt og gaman að rölta um skóginn og að Potomac ánni, eða sjá hana af hæðinni.
Eftir það keyrði Veiga okkur niður í Georgetown og skildi okkur þar eftir. Það var náttúrulega geðveikt að koma þangað aftur þar sem þetta var uppáhalds hverfið mitt áður fyrr og staðurinn þar sem allt gerðist á. Það hafa reyndar orðið smá breytingar þarna þar sem þetta er orðið meira upscale hverfi og búðirnar og annað orðnar miklu flottari og dýrari. Því miður er því búið að loka öllum pöbbunum sem við vorum á og þar af leiðandi ekki hægt að fara aftur á The Crasy Horse :( Þó var Fifth Column enn þarna en ég nennti nú ekkert að vera að fara þangað inn enda vantaði mig ekkert smá Gunni. Kiddi varð bara að vera staðgengill fyrir hana og láta sig hafa allt röflið í mér um forna tíma :)

Kvöldið var tekið rólega eins og áður yfir nokkrum rauðvínsglösum og dýrindis indverskum mat..........

Áður en við fórum heim á sunnudaginn fórum við aftur á The Mall og fórum í listasafnið og flug og geimsafnið. Eins og ég vissi þá sló það alveg í gegn hjá eiginmanninum enda gaman að sjá allt þetta geimdót og komast inn í alvöru geimflaug. Já svo beið okkur bara rútan en heimferðin tók aðeins styttir tíma, sem betur fer. Sem sagt alveg frábær helgi.

Það er enn nokkuð kallt hér í NY en það á sem betur fer að fara að hlýna á morgun enda fyrsti vordagurinn genginn í garð. Magga og Frikki fá því gott veður í heimsókninni, sem minnir mig á það að ég þarf að fara að ganga frá planinu. Míns er svo skipulögð að það hálfa væri nóg en það þýðir ekkert annað en að taka þetta skipulega þegar maður er að heimsækja svona stóra borg í skamman tíma.

Annars ætla ég með Kidda niður í bæ á eftir til að eyða smá tíma í Barnes og Noble og reyna að finna einhverja sniðuga bók um New York fylki svo ég geti farið að skipuleggja fríið með mömmu og pabba í lok maí. Úff ég veit ekki hvað ég á að gera þegar ég flyt heim og hef enga Barnes og Noble, íslenskar bókabúðir komast ekki með tærnar þar sem Barnes og Noble eru með hælana,kannski ósanngjarn samanburður - ég veit það ekki.

Jamm og já, þangað til næst adíós
|

Thursday, March 18, 2004

Ætlum að vera svo köld að leggja í hann til Washington með Dragon Coach buses þrátt fyrir winter weather advisory. Það er nebblega snjóstormur í nálægðinni, hmm þá erum við að tala um nokkur snjókorn......... Allavega gott að flýja þetta veður um helgina og komast í aðeins hlýrra lofstreymi.

Franz Ferdinard var loksins gefinn út í USA og mæli ég eindregið með þeim piltum, hreint frábærlega skemmtilegt.

Meira síðar
|

Tuesday, March 16, 2004

Úff þvílíkt leiðindaveður sem búið er að vera í dag, snjókoma.......

Ég bið nú ekki um meira en að veðrið sé eins og þegar ég kom, um 10 stiga hiti, ekki snjókoma for crying out loud. Ætti kannski ekki að vera að kvarta miðað við lýsingar á leiðindaveðri heima.

Nóg um veðrið, eða kannski ekki, nennti allavega ekki að fara neitt út í dag þannig að ég hékk inni og kláraði New York Times frá því um helgina og las mér til fróðleiks varðandi vinnumál. Já svo getur maður alltaf gleymt sér yfir palminum, algjör snilld sem þetta er. Er búin að downloda nokkrum forritum sem ég er að fikta í, enda verður maður að vita um hvað málið sníst til að þetta komi að notum - ekki satt?

Slúðurþættirnir eru að fara að byrja svo ég þarf að planta mér upp sófa, later gador
|

Monday, March 15, 2004

Mission accomplished

Takmark helgarinnar var sem sagt að sjá Carlos, bassaleikarann í Interpol (nema hvað!!).
Þetta er einfaldlega töffari aldarinnar og þar sem eiginmaðurinn á mynd af sér með honum varð ég einfaldlega að sjá hann líka.

Ferðin byrjaði á föstudaginn þar sem við fórum á barkvöld (sjá myndir á www.grasrot.com), nokkuð vel heppnað bara. Hitti ferðafélagann Önnu og Joseph kærastann hennar og Dísu náttla ásamt fullt af fleira fólki. Eftir nokkra á Telephone Bar and Grill ákáðum við nokkur að fara á Lit til að reyna að athuga hvort við rækjumst ekki á Carlos. Á pakkaðri stað hef ég ekki komið áður, úff. Ég hef reyndar einu sinni komið þarna áður og fékk þvílíka innilokunarkennd niðri í kjallara enda ákvað ég að fara ekki þangað aftur, kjallarann sko, en efri hæðin var aðeins skárri. Við stoppuðum nú ekki lengi þarna enda vorum við að reyna að spara okkur fyrir laugardagskvöldið. Við reyndar fórum ekki af stað fyrr en Kiddi var búinn að gera bestu kaup lífs okkar.

Svo er mál með vexti að ég er að safna flottum áldósum og náðu tvær áldósir á barborðinu að fanga athygli mína. Kiddi spurði barþjóninn hvort við mættum fá þær en hann neitaði því alfarið. Ég var hálf svekkt yfir þessu þannig að Kiddi bauðst þá til að stela þeim fyrir mig, sagði að það væri ekkert mál!!! Ég var nú ekki að alveg að til í að hann stæli fyrir mig svo hann gerði barþjóninum tilboð sem hann gat ekki neitað, 10$ fyrir tvær litlar dósir (reyndar með safanum í). Þetta er algjörlega bráðfyndið en ég passa mig að hlæja ekki of mikið af þessu þar sem hann gerði þetta af einskærri góðmennsku í minn garð.
Hversu góðan eiginmann er hægt að hafa, ég bara spyr ;)

Á laugardeginum var ferðinni svo heitið á tónleika með British Sea Power í Bowery Ballroom. Við fórum aðeins fyrr af stað um daginn og rölltum um Soho, byrjuðum reyndar í Noho. Ég er loksins búin að fá skýringuna á þessum hverfisnöfnum, fattaði eiginlega alrei hvað Noho átti að vera eða þýða. Það þýðir sem sagt north of Houston (borið fram Háston á New York-ísku) og Soho er sem sagt south of Houston (gata sem skilur Greenwich Village og Soho, Little Italy og Lower East side að). Mjög gaman að röllta þarna um, fullt af púb-um og hönnunarbúðum sem gaman er að kíkja í. Fundum meirisegja Ástralskan púb sem bíður upp á hreindýrasnarl með bjórnum. Soldið fúllt að hafa ekki vitað af honum þegar ástralarnir, Stefanía og Eggert, voru hjá okkur.

Jamm hittum svo tónleikafélagana og borðuðum á Mexikóskum veitingastað fyrir shóvið. Úff ég veit ekki hvort ég leggi í að fara aftur á Mexikanskan stað, skammtarnir eru svo ofur stórir að maður er gjörsamlega að springa eftir þetta át og þá er ég að tala um að helmingurinn er samt eftir. Ég er náttúrulega vel upp alin þannig að ég veit að maður á alltaf að klára matinn, hvað með öllu svöngu börnin í Afríku??? þannig að þetta er svona, maður reynir að gera sitt besta og þá verður útkoman svona.

Tónleikarnir voru alveg meiriháttar, hápunkur kvöldsins var samt að Carlos stóð allt í einu fyrir framan okkur. OHhhhhhhhhhh það var geðveikt að berja hann augum alla tónleikana............
Við vorum búin að diskútera hvort við ættum að opna sambandið þegar ég loksins sæji hann en svo rann ég á rassgatið með þetta. Þorði ekki að labba upp að honum og hrista spaðann, fannst það ekki alveg nógu kúl enda var maðurinn þarna til að skemmta sér. Kiddi og þau voru ekki alveg sammála mér, fannst ég ætti að fara og tala við hann en mér nægir að hafa tvisvar náð augnsambandi við hann(hí hí).

Já svona fór það. Þetta er annars rosalega svöl hljómst, þeir voru með þvílíkt propp á sviðinu. Fylltu það af greinum og voru með uppstoppaða uglu á einum magnaranum og gervifugl hangandi í loftinu. Þetta endaði í þvílíku rokki og róli, greinarnar dúndruðust út í sal og fuglinn var drepinn :)

Enduðum svo kvöldið á að fara á Don Hills og tjúttuðum þar eitthvað frameftir, Carlos kom því miður ekki þangað í þetta skiptið en maður heldur alltaf í vonina.....
|

Thursday, March 11, 2004

Ohhhhh my god

Það var verið að auglýsa í gær nýjan raunveruleikaþátt á Fox og ég held það gerist ekki verra. Það á að safna saman slatta mikið af ljótum konum, senda þær í lýtaaðgerðir, gera þær fallegar og senda þær svo í fegurðarsamkeppni. Þátturinn heitir by the way The Swan. Það er alveg ljóst að Ruth Reginalds fæddist sko alveg í vitlausu landi.

Það gengur bara vel að hlusta á British Sea Power, þeir eru alveg slatti góðir. Mæli svo eindregið með The Shins, geðveik hljómst.....

Annars er bara íslenskt sumarveður, sól og hlýja. Fór í langan göngutúr áðan og kíkti náttla í leiðinni í tvær búðir. Svona super stórar búðir eins og Target og Babies R Us - það var sko fyrir Hildi systir :) Fékk mér svo Vanilla Latte á Starbucks, klikkkar ekki.

Svo er bara stórt sjónvarpsgláp í kvöld, Survivor og The Apprentice sem er raunveruleikaþáttur (nema hvað) með Donald Trump. Hann er að reyna að ráða einhvern sem kemur til með að stjórna einhverju af fyrirtækjunum hans og er þetta sem sagt samkeppni milli margra aðila þar sem einn er alltaf rekinn úr hverjum þætti. Þetta er alveg að rokka og fólk er alveg fast yfir þessu. Ætli maður panti ekki bara kínverskan, Chicken Lo Mein. Fáránlegt en það er ódýrara að kaupa þetta tilbúið en fara út í búð og versla í matinn - svona er þetta sniðugt í USA.

Sem sagt bara góður dagur.......
|

Wednesday, March 10, 2004

Úff er með vöðvabólguverki í öxlunum eftir gærdaginn................

Og hvað var ég að gera, jú var á tónleikum. Þið spyrjið ykkur nú kannski sjálf afhverju ég sé með verki í öxlum eftir tónleika, en það skýrist.

Fyrirhugað var sem sagt að sjá TV on The Radio úti í Brooklyn, nánar til tekið á 5th avenue. Við vorum búin að sjá grein í New York Times Magazine að þetta væri eitthvað kúl hverfi, Park Slope, þannig að við ákváðum að fara aðeins fyrr og tékka á því. Jú jú við sáum nokkrar kúl búðir, antik - skran og second hand föt - en meirihlutinn af búðunum þarna voru lokaðar þannig að við náðum ekki alveg að sjá hvað hverfið hefur upp á að bjóða í heild sinni, þó það sem við höfum séð væri fínt. Eftir smá rölt fengum við okkur að snæða á Mexikönskum samlokustað, sem var bara fínt og fórum svo að hitta Einar, Sigga og Eyjó á bar skammt frá.

Eftir einn þar fórum við á tónleikastaðinn þar sem beið okkar stærðarinnar röð, sem hreyfðist ekki hratt. Það má eiginlega segja að þarna hafi tónninn verið settur fyrir kvöldið..... Við vorum svo óheppin að eitt upphitunarbandið var að byrja þegar við komum inn, en við vorum búin að binda vonir okkar við að hljómsveitin sjálf færi að byrja enda klukkan orðin hátt í 10. Nei þetta var í staðin leiðinlegasta hljómsveit sem ég hef á ævinni heyrt, þetta var svo slæmt að hljóðhimnurnar á mér bera varanlegan skaða af. Þetta voru þrjár stelpur sem voru með einhverja hljóðeffekta og gauluðu ofan í þá, áááááá hvað þetta var svo slæmt. Þær voru svo úr takt við stemminguna á staðnum að það hálfa væri nóg, eftir þó nokkur mörg lög ( of mörg) spurðu þær áhorfendurna hvort þeir hefðu tíma fyrir eitt lag í viðbót - ÞVÍLÍK SPURNING. Salurinn argaði neiiiiiii þannig að þær fóru með skottið á milli lappanna af sviðinu. Við erum svo að tala um það að sjálft bandið byrjaði svo að spila upp úr 11:30 sem er óþolandi seint svona í miðri viku og maður var orðinn svo þreyttur og pirraður að maður nennti varla að hlusta á þá. Þetta reyndist svo vera ekkert sérstök hljómsveit, allt of mikið af falsettu gauli, en þetta var reyndar áhugavert band að vissu leyti því meirihlutinn af þeim voru litaðir. Nú spyrjið þið aftur hvað er svona merkilegt við það en maður hefur bara gert þá uppgötvun hér í borg að maður hlustar á hvítra manna tónlist, þ.e. nýbylgjurokk. Nú er ég alls ekki og ég endurtek alls ekki bundin fordómum en þetta er bara svona, ákveðinn hópur fólks hlustar á hipp hopp og ákveðinn rokk og svo gerist það skemmtilega að þetta er ekki algilt eins og sást á þessum tónleikum (jákvætt sko).

Já svona fór um sjóferð þá, ég allavega hugsa mig betur um áður en ég fer á tónleika í Brooklyn því við vorum ekki komin heim fyrr en kl. 3 í nótt og maður er eitthvað hálf latur og dommaralegur þrátt fyrir að hafa bara drukkið tvo bjóra. Já og vöðvabólguverkirnir skýrast sennilega út af því að ég stífnaði eitthvað svo öll upp við þessa leiðinlegu tónlist.

Yepps annars ekkert að frétta, þarf bara að fara að hlusta meira á British Sea Power en við förum á tónleika með þeim á laugardaginn. Annars er ég í hálf erfiðri stöðu því það biðu mín 10 nýir diskar þegar ég kom heim, soldið stór biti að kyngja í einu en það hefst......
|

Monday, March 08, 2004

Bara svo þið vitið það, þá vil ég ekki tala um 26. maí. Þvílík endemis óheppni að það er bara ekki hægt að lýsa því og hana nú.

Williamsburg var bara fín á föstudaginn en það er kannski aðeins skemttilegra að fara þangað um sumarhelgi, aðeins svona meiri stemming. Fórum svo um kvöldið á Digital Design sýningu í skólanum hans Kidda, voða fínt - vín og samlokur og svona fyrir sýninguna sem var bara nokkuð skemmtileg. Vorum svo bara róleg, vorum komin heim um 10 og ákváðum að horfa á hvorki meira né minna en Pulp Fiction sem er nýji DVD diskurinn á heimilinu og meira að segja collectors edition (hí hí ekkert smá flott). Hlakka ekkert smá til að sýna hinum meðlimnum í aðdáendaklúbbbnum diskinn og monta mig aðeins :)

Á laugardag var ferðinni heitið á antikmarkaðinn á 6. avenue og 23. stræti, hittum Dísu á Starbucks áður og fór hún svo með okkur. Við erum orðnir fastagestir þarna enda alltaf jafn gaman að koma þangað. Rigningin skemmdi reyndar aðeins fyrir því það var ekkert um að vera á útisvæðinu en aftur á móti var innisvæðið í fulle sving. Við keyptum ógó flottan lyfjaskáp, svona til að hengja upp á vegg, á aðeins 20$ (ca 1400 kr) - gjafaverð. Við drusluðum svo skápnum með okkur á púb áður en við fórum til Einars. Hann var svo góður að leyfa okkur að geyma hann hjá sér því ekki var hægt að taka hann með út á rallið, þó það hefði kannski verið kúl...

Kiddi var búinn að finna japanskan veitingastað þar sem fæst sushi en svo var nú ekki. Þetta er örugglega skrítnasti veitingastaðurinn sem ég hef farið á. Þetta var pínulítill staður ofan í kjallara þar sem maður þurfti að beygja sig undir reipi til að komast inn og lofa að eyða meiri en 8$ á mann. Við vorum svo sem ekki í vandræðum með það, pöntuðum tvo rétti á mann sem reyndist svo vera algjör sýnishornamatur. Maður drakk þá bara í staðin því meira af Sake og fyllti magann af bjór :) Kiddi pantaði skrítnasta matinn líka, japanska pönnuköku sem reyndist vera einhversskonar fiskiommeletta sem hreyfðist. Ég veit þetta hljómar ekki vel en ég er viss um að hún var ekki lifandi. Eitthvað hafa vinsældir staðarins borist út því það var þvílík biðröð eftir að komast þangað inn eftir að við komum, sem ég skil varla en kannski var þetta bara út af okkur.
Ferðinni var svo heitið á áframhaldandi púbarölt, reyndar með viðkomu í second hand búð sem varð á vegi okkar. Við Einar versluðum okkur boli og hef ég varla gert betri kaup fyrr né síðar. Þetta segir manni kannski að það borgar sig að vera búinn að svolgra í sig nokkrum gráum áður en maður fer af stað í shopping.
Já svo var svissað yfir í G&T (gin og tonik) og þarf varla að spyrja að leikslokum.........................

Það mætti segja að það væri smá mánudagur í manni, grátt veður úti og slidda.

Já hmmm
|

Friday, March 05, 2004

Ég er html gella, allavega segir eiginmaðurinn það ;)

Setti link inn á Elfu, systir Guggu og þá systir Kidda, enda löngu kominn tími til.

Fyrirhuguð er ferð út í Williamsburg (Brooklyn) enda vart kúlaðra hverfi hægt að heimsækja. Í kvöld förum við svo á Digital Design sýningu í skólanum hjá Kidda. Förum eiginlega bara af því að það er frítt vín............. nei nei
|

Thursday, March 04, 2004

Jæja þá er maður að skríða saman eftir þotuþreytuna, ótrúlegt samt hvað ég get alltaf sofið mikið. Ég hef einnig komist að því (vissi það kannski fyrir) að ég og eiginmaðurinn höfum ekki góð áhrif hvort á annað hvað svefn varðar. Við erum alveg jafn ónýt við að vakna og saman erum við, ja svefnpurkur aldarinnar.

Ég ferðaðist aldeilis milli hverfa í gær. Takmarkið var að eyða smá af afmælispeningunum, kaupa skó og jafnvel gallabuxur. Ég byrjaði á að fara á 34. stræti og kíkti í skóbúð þar. Ég sá reyndar eina þar en nennti ekki að bíða eftir afgreiðslu þannig að ég rölti eitthvað áfram. Fór síðan á 59. stræti og kíktí í Levis og Diesel búðirnar og sannaði það eins og oft áður að ég hef dýran smekk. Auðvitað eru einu flottu buxurnar á 130$ eða um 10.000kr., aðeins of mikið en ég sé til aðeins lengur. Þegar ég var búin að vafra þarna um fór ég á 86. stræti og kíkti í aðra skóbúð auk þess að fá mér kaffi í Barnes og Noble og fletti nokkrum blöðum. Að ígrunduðu máli ákvað ég að máta aðrar Levis buxur svo ég fór aftur á 59. stræti, mér líkaði þær ekki eftir allt saman og hvað þá, jú ég fór aftur á 34. stræti og var á byrjunarreit. Eftir að hafa mátað skóna í fyrstu skóbúðinni sem ég fór í, í tveimur númerum, var númerið mitt auðvitað ekki til. Ég gafst þó ekki upp og bað afgreiðslufólkið að athuga hvort þeir væru til annarsstaðar. Jú jú það var til eitt par í New York sem verður sent heim til mín eftir 5-7 daga. Það má segja það að þetta hafa verið áhugaverðustu skókaupin sem ég hef gert. Ég var líka mjög fegin að hafa verið ein því það hefðu nú ekki margir nennt að standa í þessu veseni öllu.

Dagurinn í dag hefur verið tíðindalítill, ég fór í þvottahúsið og þvoði eins og eina vél og skrapp svo til Indlands. Ákvað nefnilega að hafa indverskan grænmetisrétt í kvöld og vantaði nokkrar vörur í hann. Það er alveg merkilegt hvað það er ódýrt að versla þarna, ég keypti fleiri fleiri poka af kryddum og grænmeti og lagði einungis út fyrir þessu ca. 1500 kr.

Það má eiginlega segja að afrek dagsins hafi samt verið að tala við lögfræðinginn. Ég var aðeins búin að kvíða því en ákvað að ljúka því af og sé ekki eftir því núna. Hann hafði náttúrulega bara sömu svörin og alltaf, að hann vissi ekki neitt. Hann var samt að pæla í að senda aðra umsókn inn (á eigin kostnað) vegna þess að hann hélt að mín hafi dottið einhversstaðar inn á milli og væri hreinlega týnd. Pæliði í óheppni, það er örugglega ekki til óheppnari manneskja en ég, búin að hafa fyrir þessu öllu og umsóknin týnist. Aðrar umsóknir sem voru sendar inn á sama tíma og mín hafa verið afgreiddar þannig að það þarf ekkert að pæla í því meira - HÚN TÝNDIST........... Arrgggggggg

Já það þýðir víst lítið að pæla í þessu meir, maður getur víst litlu breytt úr þessu (er að reyna að vera smá Pollíanna)

Hætti þessum pirring í bili........
|

Tuesday, March 02, 2004

Jamm ég er á lífi.....

Lifnaði loksins við þegar ég komst aftur til NY, þvílíkur unaður sem það er. Ferðalagið gekk sem sagt vel, fyrir utan nær yfirlið í Flugleiðavél. Var kannski pínu stressuð yfir að vera að fara að hitta útlendingaeftirlitið eða hlakkaði svona ógurlega til að hitta eiginmanninn, hver veit??? Sem sagt komst heil á undan áætlun til La Guardia með ferðafélganum sem ég kynntist í Boston, enda gott að geta spjallað við einhvern í tveggja og hálfs tíma bið. Eiginmaðurinn var ekki spenntari en svo að hitta mig að hann kom 20 mín of seint. Ég sem var búin að monta mig af stundvísi hans og sagði ferðafélaganum að hann yrði pottþétt kominn en svo var nú ekki. Honum til afsökunar lenntum við eins og ég sagði áðan á undan áætlun svo ég ætti ekki að kvarta.

Já það er alltaf gott að vera komin heim, mín beið kampavísflaska og spínatdýfa sem minn ástkæri var búinn að útbúa. Það fást nú alveg 10 stig fyrir það. Svo fékk ég alveg dásamlega afmælisgjöf, Tungsten lófatölvu sem ég var búin að dreyma um að eignast. Ég held við séum opinberlega orðin græjufólk :) Sumir velta því nú örugglega fyrir sér afhverju ég var búin að dreyma um að eignast lófatölvu, græjumanneskjan sem ég er, en ástæðan er sú að ég ætla að notfæra mér þetta í starfi. Setja inn svona allskonar forrit mér til fróðleiks og hagræðingar.

Við fórum svo inn á Manhattan í gær, ohhh það var svo gaman að koma þangað aftur. Við röltum um East Village og kíktum í búðir en ég ætlaði mér að eyða afmælispeningunum. Það gekk ekki alveg í fyrstu ferð en ég held ég þurfi ekkert að örvænta. Ég hitti svo Dísu í Barnes and Noble eftir að Kiddi fór í skólann og tjilluðum við þangað til hann var búinn. Það var ekkert smá gaman að hitta Dísu aftur.....

Í dag er ég svo að kynnast lófatölvunni minni eða palm-inum. Þetta er svaka vinna, stór manual og allt. Ég sé til hvað þolinmæðin endist mér, ætli það lendi svo ekki á Kidda að útskýra þetta svo fyrir mér - nei nei sé nú til með það.
Svo er bara aldrei að vita nema ég hendi mér niður í bæ og rölti eitthvað um stræti borgarinnar, yfir og út.

p.s. Ég launa Tobbaliusi með að setja mig aftur inn á contact listann sinn með því að setja hann inn hjá mér, enda tími kominn til - ekki satt.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?